fimmtudagur, mars 10, 2005

af aurum skuluð þið apar verða

Ég er búinn að vera að hlusta á Rás 2 í allan dag og það er allt sjóðbullandi vitlaust þarna. Og engan skal undra því þessi ráðning á nýjum fréttastjóra Útvarpsins er eitthvað meira en lítið vafasöm. Ég skal ekkert um það segja hvort hún er af pólitískum toga en ekki er hún á faglegu nótunum. Sá einstaklingur sem var minnst hæfur í starfið var ráðin, maður sem hefur unnið við fjármálstjórnun síðustu árin. Hvað kemur fjármálastjórnun fjölmiðlum við? Þessi maður var sá eini er meirihluti Útvarpsráðs mælti með og tók það fram að hann hefði staðið sig einkar vel í sínu síðasta starfi. Það má vel vera en hann var ekki að vinna við fjölmiðla heldur bókhald. Þó að maðurinn hafi verið stjórnandi og vilji skipta um starfsvettvang verður hann að byrja á botninum eins og aðrir, hann getur ekki bara byrjað á því að verða stjórnandi á einhverju sviði sem hann hefur enga þekkingu á. Reyndar vann hann við fréttamennsku á Bylgjunni einhvern tíman í afleysingum, en það er engan veginn nóg reynsla fyrir svona starf. Aðeins áralöng reynsla við fjölmiðla ætti að vera fullnægjandi.
Þetta mat meirihluta Útvarpsráðs rímar vel við þróun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu síðustu ár, þar sem það fólk sem vinnur við að handfjatla peninga er einhvern vegin orðið mikilvægasta fólkið í þjóðfélaginu. Ekki kennarar eða læknar eða ruslakallar (ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef ruslakallar færu í verkfall í nokkrar vikur!) heldur verðbréfamiðlarar og bankastjórar. Peningaþekking er orðin dýrmætasta þekkingin í landinu og einhvern veginn það sem stjórnar öllu sem þegnar og ráðamenn þessa lands gera. Hversu kapitalísk erum við orðin? Bókhaldari er hæfasti einstaklingurinn til að verða fréttastjóri miklvægustu fréttastofu landsins. Þetta er rugl! Niður með peningavaldið!

þriðjudagur, mars 08, 2005

LEGO

Um daginn kom Þóra með þrjá risastóra kassa af legokubbum heim með sér úr vinnunni. Næstu þrjú kvöld eyddum við í arkitektúr, fagurfræðilegar pælingar og skipulag herbergja í húsunum okkar sem voru alltaf, sökum þess að kubbakassarnir virðast vera botnlausir, eins stór og hugsat gat. Ég bjóst hreinlega ekki við að ég gæti gleymt mér svona í þessu eins og raunin varð, þetta er nefnilega alveg eins gaman og þegar maður var lítill jafnvel skemmtilegra. Þó við höfum verið allt uppí 3 klukkutíma að klára sum húsin vill maður alltaf rífa þau niður fljótlega aftur til að geta byggt flóknara, stærra og flottara hús. Fyrir fullorðið fólk sem hefur mikla sköpunarþörf en veit ekki alltaf nákvæmlega hvernig það á að fullnægja henni þá er lego svarið. Þetta hefur virkað á mig eins og hálfgerð slökun, og síðustu daga hef verið endurnærður og afskaplega skýr í kollinum. Ég kláraði meir að segja verkefni fyrir skólann í dag sem ég á ekki að skila fyrr en eftir viku. Eitthvað sem ég hef ekki gert síðan ég var..., ja líklega bara aldrei.