þriðjudagur, mars 07, 2006

Sagan endalausa

Við Þóra horfðum á Óskarsverðlaunamyndina Crash fyrir nokkrum vikum og fannst ekki mikið til koma. Þóra meira að segja nennti ekki einu sinni að klára hana. Ég horfði þó á hana alla og ég verð að segja að mér fannst hún ekkert sérstök, hún var alltílagi en ekki mikið meira en það. Mér fannst hún klisjukennd, grunn og frekar fyrirsjáanleg. Sem dæmi var nokkuð fyrirsjáanlegt að lásasmiðurinn sem persóna Söndru Bullock treysti ekki vegna þess að hann var mexíkanskur eða eitthvað svoleiðis væri í reynd ekki einhver brjálaður gangster heldur elskandi faðir. Eins var augljóst að fordómafulla löggan sem Matt Dillon myndi sjá villu síns vegar á einhvern dramatískan hátt, þegar hann kom að bílslysinu þarna kom langt í frá á óvart að konan sem hann hafði "assfucked" kvöldið áður væri í bílnum. Og auðvitað átti svarti þjófurinn sem hélt langar ræður um að hann myndi aldrei nokkurn tíma ræna ,,bróður" eftir að gera það seinna í myndinni. Ég gæti haldið lengi svona áfram. Þetta var einhvern veginn allt svo mikil klisja og grunnt, þessi mynd sagði manni ekkert akkúrat ekkert. Ekkert nema það fólk er fordómafullt, hugsar fyrst og fremst um eigin rass og notar samfélagslegar kreddur til að koma vilja sínum fram. En hver vissi það ekki fyrir, fylgist fólk ekki með. Ég veit það ekki, ég er búinn að lifa á þessari í Jörð í 28 ár og sú lexía sem situr hvað fastast í mér er það að fólk er fordómafullt. Þessi mynd var ekki að gera neitt fyrir mig. Hún sagði frá vandamálinu en í henni fólst lítill skilningur.

Áðan fórum við á myndina sem allir héldu að myndi vinna, Brokeback Mountain, og ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju sú mynd vann ekki Óskarinn. Það er bara óskiljanlegt. Menn tala um að Hollywood hafi ekki verið tilbúið fyrir samkynhneigð og ákveðið að taka á kynþáttafordómum þetta árið, kannski verður það samkynhneigð á næsta. Ef sú er raunin er það ótrúlega vond afsökun. Crash reynir að taka á kynþáttafordómum en gerir það ekki vel. Brokeback Mountain hins vegar fjallar um samkynhneigð á stórkostlegan og djúpstæðan hátt. Hún fjallar líka um ýmislegt annað heldur en samkynhneigð og á vissan hátt var það að þetta voru tveir karlmenn sem voru ástfangnir aukaatriði. Aðalatriðið var það ást þeirra gat ekki aldrei orðið. Crash var svo mikið að rembast. Ekki ætti að dæma eftir því sem innihaldið átti að vera heldur hvernig það raunverulega var. Þetta sannar bara þá staðreynd fyrir mér að Óskarsverðlaunin eru ekkert sérstakur pappír, og þeir sem þar stjórna eru grunnhyggnir vitleysingar, þó með hjartað á réttum stað.

Brokeback Mountain er falleg og raunsæ mynd um ást sem aldrei gat orðið. Sagan er listilega vel sögð og sérstaklega vel leikin af öllum sem í henni leika. Hún er laus við klisjur og tilgerðalega væmni. Það var ósjaldan sem mér vöknaði um augun og lokaatriðið er eitt harmþrungnasta atriði sem ég hef séð.

mánudagur, mars 06, 2006

Rigning og jarðskjálfti og konan sefur uppí rúmi um miðjan dag

Úff þvílík ísrignin sem bylur á glugganum, brrrr. Ég skrópaði í tímann sem ég átti að fara í áðan á grunndvelli þessarar ógeðslegu rigningar úti. Má ég þá heldur biðja um kuldann sem var um helgina, það er þó allavegana fallegur kuldi. Reyndar var ástæðan fyrir skrópinu líka sú að ég er ekki enn fullbúinn með þetta viðtal sem ég er búinn að vera að afrita í viku núna, ekki búinn að gera neitt annað og enn ekki búinn. Það er alveg ótrúlega merkilegt hvað maður er lengi að gera hlutina þegar maður hefur lítið að gera. Mikið óskaplega hlakkar mig til að fá mér vinnu í sumar eða haust og fara að gera eitthvað og tala við fólk í staðinn fyrir að tala við sjálfan mig og tölvuna allan daginn. Það er einnig skelfilegt hvað almennri tiltekt hefur hrakað gífurlega á heimilinu síðan ég byrjaði í skóla. Ég get svarið það að þegar ég var að vinna tíu tíma á dag og bjó einn þá var oftar vaskað upp og sett í þvottavél. Sjónvarpsgláp og tilgangslaust tölvuráp hefur einnig aukist og aukist. Ég man þegar ég var enn óharðnaður unglingur og átti ekki tölvu og hafði bara eina sjónvarpsstöð. Þá las maður bækur og sat við skriftir og hlustaði á plötur og málaði myndir og upphugsaði upp geðveikislegar hugmyndir um hvernig maður ætlaði að gera byltingu og svoleiðis. En nú er öldinn önnur og það merkilegasta við suma daga er að horfa á Friends þátt. Úff, hvað gerðist eiginlega. Var það kannski ástin? Jú að vissu leyti var það ástin, því þó ástin sé yndisleg og góð og sæt og ég gæti ekki hugsað mér lífið án hennar, þá er það einhvern veginn þannig að þegar maður var þessi unglingur þarna þá var maður alltaf einmana og miskilinn og uppfullur af depurð og lét sig dreyma um ástina, og núna þegar maður hefur fundið ástina, þá er maður ekki einmana og miskilinn og dapur og því hefur maður ekkert til að láta sig deyma um. Ég veit það ekki kannski er þetta bara veðrið. Ég ætla að fara núna og vaska upp, og sópa sameignina og ryksuga stofuna.

Ég hef enn ekki hitt Séra Jón.